31.08.2007

Urriðaholt í lokaúrslit LivCom

Skipulag Urriðaholts í Garðabæ hefur verið valið í lokaúrslit LivCom verðlaunanna, en það eru alþjóðleg umhverfisverðlaun sem eru veitt með stuðningi Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna.

LivCom verðlaunin eru veitt fyrir uppbyggingu sem hefur sjálfbærni og umhverfisvitund að leiðarljósi. Heiti verðlaunanna er stytting á “livable communities” eða lífvænleg samfélög. Þau hafa verið veitt árlega frá 1997 og eru einu verðlaun sinnar tegundar í heiminum. Markmið þeirra er að hafa jákvæð áhrif á umhverfismótun og vera um leið vettvangur fyrir miðlun hugmynda og upplýsinga á þessu sviði. Rúmlega 50 lönd taka að jafnaði þátt í samkeppni um LivCom verðlaunin. Verkefnin sem komist hafa í lokaúrslit að þessu sinni verða kynnt dómnefnd í nóvember næstkomandi í Westminster í London.

Skipulag Urriðaholts fékk fyrr á þessu ári verðlaun frá Boston Society of Architects. Þau voru veitt fyrir framúrskarandi skipulag, þar sem unnið hefur verið frá grunni með sjálfbæra þróun og virðingu fyrir umhverfi og samfélagi að leiðarljósi.

Skipulag Urriðaholts nýtur einnig viðurkenningar á norrænum vettvangi. Nordregio, sem er norræn rannsóknarstofnun í skipulags- og byggðamálum, gaf nýlega út skýrslu um aðstæður sem geta haft ráðandi áhrif á samkeppnishæfni og sjálfbærni borgarsvæða á Norðurlöndum. Urriðaholt var framlag Íslands í þessari skýrslu, sem dæmi um árangursríkt skipulagsverkefni.

Livcom