Skipulagið verðlaunað
Rammaskipulag fyrir Urriðaholt, þar sem sleginn er nýr tónn í skipulagi byggðar á Íslandi, hefur fengið verðlaun frá Boston Society of Architects (BSA). Verðlaunin eru veitt fyrir framúrskarandi skipulag, sem unnið hefur verið frá grunni með sjálfbæra þróun og virðingu fyrir umhverfi og samfélagi að leiðarljósi. Byggðin er lágreist og nokkuð þétt, með áherslu á að skapa tilfinningu fyrir rótgróinni byggð. Verðlaunin eru einnig veitt fyrir gott gönguumhverfi, meðferð ofanvatns til að vernda Urriðavatn, tengingum við útivist og síðast en ekki síst því hvernig leitast er við að mynda skjól og fanga sólarljós.
Auk þessa hefur rammaskipulag Urriða-holts verið valið sem íslenskt framlag í norrænt rannsóknarverkefni norrænna skipulagsyfirvalda og Nordregio, norrænu rannsóknarstofnunarinnar í skipulags- og byggðamálum sem stofnuð var af Norrænu ráðherranefndinni. Markmið verkefnisins var að leita góðra fordæma og skilgreina þær aðstæður sem geta haft ráðandi áhrif á samkeppnishæfni og sjálfbærni borgarsvæða á Norðurlöndum.