21.04.2020

Rannsóknir á blágrænum ofanvatnslausnum í Urriðaholti

Hópur vísindamanna frá Háskóla Íslands hefur undanfarin ár unnið að rannsóknarverkefni í Urriðaholti sem kallast „sjálfbær regnvatnsstjórnun í köldu loftlsagi.“ Rannsóknin snýr að sjálfbærum ofanvatnslausnum í Urriðaholti, oft líka kallaðar blágrænar ofanvatnslausnir. Verkefnið hlaut 3 ára styrk frá Rannís árið 2018 og lýkur því á þessu ári.

Stór hluti Urriðaholts er innan vatnasviðs Urriðavatns. Hefðbundnar fráveitulausnir safna ofanvatni frá byggð í fráveitukerfi og beina því þannig almennt til sjávar. Væri slíkum lausnum beitt í Urriðaholti er hætt við að náttúrulegt rennsli til Urriðavatns myndi minnka, með neikvæðum afleiðingum fyrir grunnt vatnið og lífríki þess. Með blágrænum ofanvatnslausnum er stuðlað að því að vatnið skili sér þess í stað niður í jörðina til að viðhalda lífríki Urriðavatns.

Hvernig virka ofanvatnslausnir í köldu loftslagi?

Markmið rannsóknarinnar er að skilja betur snjóbráð og ísig vatns þar sem tíð frost og þýða eru viðvarandi. Niðurstöður munu gegna lykilhlutverki við að tryggja farsæla hönnun og rekstur ofanvatnskerfa í þéttbýli í köldu loftslagi.

Dr. Hrund Ó. Andradóttir, prófessor í umhverfisverkfræði við HÍ er verkefnisstjóri rannsóknarinnar og Tarek Zaqout doktorsnemi í umhverfisverkfræði stýrir vettvangsrannsóknunum í Urriðaholti.

Tarek Zaqout
Doktorsneminn Tarek Zaqout við ofanvatnsmælingar í Urriðaholti.

Að sögn Tarek lýkur vettvangsvinnu í Urriðaholti í maí. Þrjár vísindagreinar verða gefnar út um rannsóknina og verður þeirri fyrstu lokið í sumar.

Jákvæðar vísbendingar

„Við höfum aðallega verið að skoða hvernig ofanvatnskerfið virkar að vetrarlagi, hvernig rennslið verður þegar frost er í jörðu, hvort það verða flóð, hvert vatnið af götunum rennur, hvað skilar sér niður í grunnvatnið og þar fram eftir götunum,“ segir Tarik.

„Minna ísig mældist í gróðurrásum að vetrarlagi vegna frostmyndunar. Hins vegar voru rásirnar ekki nálægt því að yfirfyllast og þannig virðast þær hafa gegnt sínu hlutverki við að beina umframvatni úr hverfinu niður í grunnvatn.“

Í vettvangsrannsóknunum hafa verið gerðar mánaðarlegar ísigstilraunir, sem meta getu jarðvegs til að taka við vatni og miðla í grunnvatn. Streymi að Urriðavatni er mælt, gerviflóð mæld í gróðurrásum og mælingar farið fram á snjóþykkt, eðlisþyngd, leiðni, svo og hita- og rakastigi.

Rannsóknarmiðstöðin í Urriðaholti

Garðabær, Urriðaholt ehf., Veðurstofa Íslands og Háskóli Íslands undirrituðu samstarfssamning um uppbyggingu rannsóknarmiðstöðvar á sviði blágrænna regnvatnslausna í Urriðaholti í Garðabæ í maí 2018. Í lok þess árs tók sérstök veðurstöð til starfa í Urriðaholti í þessu skyni. Rannsóknarverkefni HÍ er það fyrsta sem fram fer í þessu skyni og er Urriðaholti ætlað að vera rannsóknarvettvangur fyrir vísindalegar rannsóknir á blágrænum regnvatnslausnum. Niðurstöðum úr þessari vinnu verður miðlað jafnt innan- og utanlands.

Rannsóknarteymið

Eins og getið var um hér á undan hafa þau Hrund Ó. Andradóttir og Tarek Zaqout leitt rannsóknarverkefnið. Auk þeirra hafa eftirtaldir einstaklingar unnið að því:

  • Dr. Johanna Sörensen, póst-doc HÍ/Lund
  • Anna Rut Arnardóttir, MS. Ritgerð hennar fjallar um veður- og yfirborðsaðstæður sem valda flóði í þéttbýli og má nálgast á skemmunni.
  • Bjarni Halldórsson, MS nemi.
  • Vilhjálmur Sigurjónsson, tæknistjóri VoN
  • Ólafur Arnalds, prófessor í LBHÍ

Þá hafa 16 nemendur áhugasamir á umhverfismálum hafa fengið þjálfun í hvernig rannsóknaaðferðum er beitt í þessum rannsóknum. Þannig fengu þeir innsýn í hvernig rannsóknir fara fram á vettvangi, að hversu mörgu þarf að huga og hvernig oft getur verið erfitt að hrinda einfaldri hugmynd í framkvæmd utandyra.

Snjómælingar
Hluti af rannsóknarhópnum að störfum við snjómælingar í Urriðaholti.