Kynningarfundur um deiliskipulagstillögu 3. áfanga Norðurhluta Urriðaholts
Kynningarfundur um tillögu að deiliskipulagi 3. áfanga Norðurhluta Urriðaholts verður haldinn miðvikudaginn 30. mars á bæjarskrifstofum Garðabæjar og hefst fundurinn kl. 16.
Deiliskipulagið nær til 9 hektara svæðis við Urriðaholtsstræti og hæsta hluta holtsins. Tillagan gerir ráð fyrir að hámarki 327 íbúðum í fjölbýli (3-5 hæðir) og rað- og parhúsum (1-2 hæðir), af mismundandi stærð í blandaðri byggð sem getur hentað fyrir alla aldurshópa. Við Urriðaholtsstræti verða fjölbýlishús með atvinnutengdri starfsemi á neðstu hæð sem snýr að götunni.
Forkynning á deiliskipulagstillögunni stendur til 11. apríl 2016. Meðan á forkynningu stendur er tillagan aðgengileg á heimasíðu Garðabæjar, www.gardabaer.is og á heimasíðu Urriðaholts. Þeim sem telja sig eiga hagsmuna að gæta er gefinn kostur á því að koma með ábendingar sem verða teknar til umfjöllunar við endanlega mótun tillögunnar. Skal þeim skilað skriflega til skipulagstjóra Garðabæjar fyrir 11. apríl.
Á kynningarfundinum verður tillagan kynnt, spurningum svarað og opnað fyrir umræður. Fundurinn fer fram á 3. hæð bæjarskrifstofanna.