25.11.2013

Uppbygging skóla að hefjast í Urriðaholti

Garðabær hefur auglýst eftir áhugasömum ráðgjöfum til að taka þátt í útboði á hönnun vegna nýbyggingar skóla í Urriðaholti. Leitað er að hönnunarhópum þar sem m.a. er að finna arkitekta, verkfræðinga, landslagsarkitekta og vottaða BREEAM ráðgjafa.

Áformað er að ganga til samninga við hönnunarhóp í janúar 2014. Framkvæmdir verða boðnar út í ágúst 2014 og reiknað er með að byggingu fyrsta áfanga skólans verði lokið í apríl 2016.

Uppbygging kallar á skóla
Garðabær ákvað að ráðast í skólabygginguna í kjölfar þeirrar uppbyggingar sem á sér stað í Urriðaholti um þessar mundir. Nú þegar er hafin bygging rúmlega eitt hundrað íbúða í fjölbýli og á næsta ári er gert ráð fyrir 150 íbúðum í fjölbýli til viðbótar. Auk þess hafa einbýlis- og parhús risið eða eru í byggingu.

Leikskóli og grunnskóli fyrir allt að 820 börn
Miðað er við að fullbyggður rúmi skólinn í Urriðaholti sex deildir leikskóla með um 120 heilsdagsplássum og grunnskóla fyrir allt að 700 börn á grunnskólaaldri. Í fyrsta áfanga verða um 100 heilsdagspláss fyrir börn á leikskólaaldri og rými fyrir um 250 börn á grunnskólaaldri upp í 10. bekk.

Töluverður undirbúningur hefur átt stað í uppbyggingu skólastarfs í Urriðaholti. Strax í upphafi voru lagðar ákveðnar línur í rammaskipulagi Urriðaholts og á árinu 2008 fór fram umtalsverð undirbúningsvinna á vegum mennta og menningasviðs Garðabæjar í samstarfi við arkitekta og ráðgjafa.

Samstarf um uppbygginguna
Garðabær og Urriðaholt ehf. hafa gert með sér samstarfssamning um uppbyggingu byggðar í Urriðaholti og er þar gert ráð fyrir að Urriðaholt verði virkur þátttakandi í undirbúningi skóla- og íþróttamannvirkja. Jafnframt er þar ákvæði um áherslur í umhverfismálum og hefur Garðabær samþykkt sérstaka umhverfisstefnu fyrir skóla í Urriðaholti. Vegna þessara áhersluatriða í uppbyggingu Urriðaholts áformar Garðabær að fá BREEAM vottun fyrir skólabygginguna.

Skoli umhverfismal Urridavatn
Garðabær hefur samþykkt sérstaka umhverfisstefnu fyrir skóla í Urriðaholti, en þar er m.a. gert ráð fyrir útikennslu í tengslum við fjölbreytt náttúrulíf á svæðinu, þar á meðal í Urriðavatni.
Map media 2
Í skipulagi skólalóða er leitast við að byggingar falli vel að landi og yfirbragði íbúðarbyggðarinnnar umhverfis.
Deiliskipulag skoli
Samkvæmt deiliskipulagi Urriðaholts er stórt svæði efst í holtinu tekið undir sameiginlegan skóla og leikskóla, auk íþróttahúsa og íþróttavalla.

Tengt efni