13.04.2010

Fyrstu íbúarnir fluttir í Urriðaholtið

Fjölskylda Hafsteins Guðmundssonar og Steinunnar Bergmann er sú fyrsta sem flytur í Urriðaholtið, nánar tiltekið í einbýlishúsið að Keldugötu 7. Af því tilefni kom Jón Pálmi Guðmundsson framkvæmdastjóri Urriðaholts ehf. í heimsókn og færði fjölskyldunni glaðning um leið og hann óskaði þeim til hamingju með að vera fyrst til að flytja í þetta nýjasta hverfi Garðabæjar.

Óhætt er að segja að Keldugata 7 iði af lífi þessa dagana, því auk 6 manna fjölskyldunnar eru tveir hundar á heimilinu. Húsið er ekki fullbúið að innan, þannig að fjölskyldan hefur hreiðrað um sig á neðri hæðinni á meðan sú efri er tekin í gegn.

„Við ætluðum ekki að flytja svona fljótt inn, en samningur um leiguhúsnæðið sem við bjuggum í var útrunninn þannig að við létum slag standa,” segir Hafsteinn.

Fjölskyldan bjó áður í Krókamýri í Garðabæ en þurfti að stækka við sig húsnæði. Þar sem ekki kom til greina að fara úr Garðabænum var ráðist í að kaupa lóðina á Keldugötu og byrjað að byggja.

„Við seldum fyrra húsn&eelig;ði fyrir bankahrunið haustið 2008 og höfum búið í leiguíbúð á meðan á byggingaframkvæmdum hefur staðið,” segja þau Hafsteinn og Steinunn. Lóðina keyptu þau fyrir rúmum tveimur árum en framkvæmdir hófust í desember 2008.

Tenging þeirra hjóna við Urriðaholtið nær þó lengra aftur í tímann. „Við vorum stundum í gönguferðum hér í holtinu fyrir 20 árum og fannst umhverfið jafn fallegt þá og nú. Á þeim tíma voru einhverjar áætlanir hjá bæjaryfirvöldum í Garðabæ um að skipuleggja íbúðabyggð í Urriðaholti og við töluðum um hvað það gæti verið gaman að eiga hér heima,” segja þau.

Og nú er draumurinn orðinn að veruleika. „Þó að uppbygging hverfisins hafi orðið hægari en til stóð vegna bankahrunsins, þá líður okkur mjög vel hérna og erum mjög ánægð. Aðstæður í þjóðfélaginu hafa breyst mikið og það þýðir ekkert að æsa sig yfir því þótt ekki hafi allt orðið eins og ráð var fyrir gert.”

Ekki er víst að fjölskyldan að Keldugötu 7 verði lengi “ein í heiminum” því nokkur önnur hús eru í byggingu í Urriðaholti og áform eru um að hefja byggingu á fleiri húsum í Keldugötunni. „Við tökum að sjálfsögðu fagnandi á móti nýjum nágrönnum,” segir Hafsteinn.

Hönnuður hússins er Viðar Steinn Árnason byggingafræðingur. Það er 272 fermetrar með innbyggðum bílskúr og í stofu er mikil lofthæð. Útsýnið yfir Urriðavatn og hrauntunguna er óviðjafnanlegt og kyrrðin mikil þegar verkfærin þagna í lok dagsins.

Börn þeirra Steinunnar og Hafsteins eru þrjár stelpur, 11, 21 og 23 ára og strákur 13 ára. Yngstu börnin eru í Hofsstaðaskóla og Garðaskóla. Hafsteinn er bifvélavirkjameistari og Steinunn félagsráðgjafi.

Web Fyrstu ibuar Urridaholt april 2010 003
Fyrstu íbúarnir í Urriðaholti ásamt framkvæmdastjóra Urriðaholts ehf. Frá vinstri: Hafsteinn Guðmundsson, Guðmundur Hafsteinn Hafsteinsson, Steinunn Bergmann og Jón Pálmi Guðmundsson.