Fyrstu íbúðir í fjölbýli afhentar í Urriðaholti
Fyrstu íbúðirnar í fjölbýli í Urriðaholti voru afhentar eigendum síðastliðinn föstudag, 31. október. Um er að ræða þrjár tveggja og þriggja herbergja íbúðir að Holtsvegi 23-25, sem byggingafélagið Borgarhraun reisir. Hinir nýbökuðu íbúðareigendur eru öll ung að aldri og hæstánægð með að hafa valið Urriðaholtið til búsetu.
Lóa Fatou Einarsdóttir og Pétur Örn Svansson gerðu kauptilboð í júní síðastliðnum og ætla að flytja inn þegar búið er að leggja parket á íbúðina. Þau segjast strax hafa séð þá miklu möguleika sem Urriðaholtið býður upp á.
„Staðsetningin er ótrúlega góð. Garðabær er skemmtilegt bæjarfélag, við erum nánast úti í náttúrunni en samt tekur ekki nema eina mínútu að komast út á stofnbraut sem tengist í allar áttir á höfuðborgarsvæðinu. Það eru sárafá ljós og engin hringtorg til að tefja aksturinn, þannig að maður er mjög fljótur í allar áttir. Við sjáum fram á að vilja kannski stækka við okkur eftir 5 ár og geta þá flutt innan hverfisins. Þess vegna finnst okkur í lagi þó að hverfið sé enn að byggjast upp, því að við vitum að við erum með góða eign í höndunum sem á bara eftir að verða verðmætari.“
Ísak Kristjánsson segist hafa skoðað ýmsa möguleika áður en hann ákvað að kaupa í Urriðaholtinu. Hann nefnir það sama og Lóa og Pétur, hvað samgöngur séu greiðar. „Ég starfa inni í Sundahöfn og leiðin þangað er mjög bein og fljótfarin, sem mér finnst mikill kostur. Svo er þetta auðvitað frábært útsýni hérna.“
Þórólfur Ólafsson og Sonja Sól Guðjónsdóttir flytja í íbúð sína ásamt fjögurra ára gamalli dóttur. Þau segja að bygging skóla og leikskóla smellpassi fyrir þau og nefna einnig hvað stutt sé í alla þjónustu, þar á meðal í Bónus og Ikea í Kauptúni. Þau Þórólfur og Sonja fá heilmikinn „aukabónus“ með íbúð sinni, því þau geta gengið beint úr henni út á þak bílastæðahússins, sem er töluvert stærra en sjálf íbúðin. Ekki amalegar svalir það.
Nýju íbúðareigendurnir eru öll á einu máli um hversu fallegt og gott útsýnið er yfir Urriðavatn og hrauntangann og alla leið út á sjó.
Alls eru 19 íbúðir í þessu fyrsta fjölbýlishúsi sem er tilbúið til íbúðar í Urriðaholtinu, frá 75 til 182 fermetrar að stærð.