21.05.2014

Fyrsta reisugillið í fjölbýlishúsi í Urriðaholti

Fyrsta fjölbýlishúsið er risið í Urriðaholti í Garðabæ og var því fagnað með viðeigandi reisugilli. Borgarhraun ehf. byggir húsið, sem er að Holtsvegi 23-25, með 18 íbúðum frá 75 til 180 fermetrum að stærð.

Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar ávarpaði gesti í reisugillinu og sagði einstaklega ánægjulegt að sjá þann kraft sem kominn er í uppbyggingu Urriðaholts. Gunnar sagði að bæjarfélagið fagnaði nýjum íbúum og að bygging skóla í Urriðaholti væri í takt við framkvæmdir í hverfinu, en skólinn mun taka til starfa haustið 2016. 

Fleiri fjölbýlishús eru í byggingu í hverfinu og er sala íbúða hafin í tveimur þeirra, að Holtsvegi 23-25 og Holtsvegi 31-33.