27.03.2019

Fyrsta Svansvottaða fjölbýlishúsið á Íslandi er í Urriðaholti

Urriðaholtsstræti 10-12 er fyrsta fjölbýlishúsið sem fær Svansvottun Umhverfisstofnunar hér á landi. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, afhenti viðurkenningarskjal þess efnis föstudaginn 22. mars. Eigendur hússins, bræðurnir Jón Pálmason og Sigurður Gísli Pálmason, tóku við viðurkenningunni úr hendi umhverfisráðherra.

Vistvænar áherslur hafa verið leiðarstefið í uppbyggingu Urriðaholts frá fyrsta degi.

Það á því vel við að fyrsta Svansvottaða fjölbýlishúsið skuli rísa þar. Urriðaholt er fyrsta og eina hverfið á Íslandi til að fá vistvottun skipulags (BREEAM Communities) og fyrsta Svansvottaða einbýlishúsið hér á landi er einnig í Urriðaholti, en það fékk Svansvottun í lok árs 2017.

Svansvottun 220319 JSX8744
Guðmundur Ingi og Sigurður Gísli skoða eina af smáíbúðunum ásamt Áslaugu Huldur Jónsdóttur bæjarfulltrúa.

Jón Pálmi Guðmundsson, framkvæmdastjóri Urriðaholts ehf. hefur stýrt verkefninu og leitt bygginguna að Urriðaholtsstræti 10-12. Um er að ræða smáíbúðahús með 34 íbúðum á stærðarbilinu 25-65 fermetrar. Helmingur íbúðanna er leigður til starfsmanna Ikea í Kauptúni og hinar eru á almennum leigumarkaði.

Jón Pálmi segir að það sé engin tilviljun að fyrsta Svansvottaða fjölbýlishúsið á Íslandi hafi risið í Urriðaholti í ljósi þeirrar ríku áherslu sem lögð hefur verið frá fyrsta degi á umhverfis- og samfélagsmál í hverfinu. Hann segir að liður í því sé að afla formlegra viðurkenninga á því sem verið er að gera í hverfinu. Hús Náttúrufræðistofnunar Íslands, sem er við hliðina á Urriðaholtsstræti 10-12 var fyrst til að hljóta svokallaða Breeam umhverfisvottun hér á landi. Allir skipulagsáfangar í Urriðaholti hafa fengið vistvottun Breeam Communities, sem er alþjóðlegt vistvottunarkerfi.


Svansvottun 220319 JSX8667
Eigendur smáíbúðahússins að Urriðaholtsstræti 10-12, þeir Jón Pálmason og Sigurður Gísli Pálmason, tóku við viðurkenningarskjalinu um Svansvottun hússins úr hendi Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra.

En hvað felst í því að fá vottun norræna umhverfismerkisins Svansins fyrir fjölbýlishús? Hjá Umhverfisstofnun kemur fram að Svansmerkið byggist á óháðri vottun og viðmiðum sem taka tillit til alls lífsferilsins. Tilgangur Svansins er að ýta undir sjálfbæra þróun samfélagsins svo komandi kynslóðir hafi jafna möguleika og við til að mæta þörfum sínum. Viðmið Svansins fyrir nýbyggingar taka til margra ólíkra þátta sem eiga að stuðla að betri gæðum fyrir umhverfi og heilsu þeirra sem nota bygginguna. Það eru því strangar kröfur varðandi efnanotkun, val á byggingarefni og innivist. Til að uppfylla kröfurnar þarf að ná lámarksfjölda stiga og var stigum náð m.a. með því að við hönnun hússins að Urriðaholtsstræti var áhersla lögð á að stuðla að betri hljóðvist og þar af leiðandi að betri innivist fyrir íbúa. Tekin voru skref til að minnka þörfina fyrir steypu, en framleiðsla sements hefur mikil umhverfisáhrif í för með sér. Einnig voru notaðar vistvænar lausnir fyrir íbúa, þar má nefna handbók fyrir húsið þar sem vistvænum áherslum í rekstri byggingarinnar er komið á framfæri við íbúa hússins og þeir hvattir til þess að taka þátt. Áhersla var lögð á vistvænar samgöngur og settur upp viðgerðarstandur fyrir hjólreiðafólk og verða hleðslustöðvar fyrir rafbíla á bílastæði.

Jón Pálmi segir að ferlið til að fá Svansvottunina hafi verið langt og lærdómsríkt. ,,Við þurftum að gæta að í hverju skrefi með aðferðir og efnisval og ósjaldan heyrði maður tautað hér og þar að verið væri að gera hlutina öðruvísi en hefðbundið er.”

Svansvottun 220319 JSX8546
Nokkrir gestanna við athöfnina.
Svansvottun 220319 JSX8639
Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar afhenti umhverfisráðherra sögu Garðabæjar við þetta tilefni.

Jón Pálmi segir ennfremur að strax og þetta verkefni hafi kom til tals þá hafi verið ákveðið að húsið yrði Svansvottað til samræmis við áherslur í hverfinu. „Það er mikil metnaður af hálfu eigenda Urriðaholts ehf. að standa vel að allri uppbyggingu í hverfinu og þetta var gott tækifæri til að fylgja því eftir.“

Aðspurður um aukakostnað segir Jón Pálmi að hann sé einungis örfá prósent af byggingakostnaði, en óneitanlega fylgi lærdómsferlinu alltaf einhver óbeinn kostnaður. Hann bætir því við að um sé að ræða mjög vandað húsnæði á góðum stað þar sem fólki mun líða vel. Vissulega megi finna ódýrara húsnæði annarstaðar, en það sé í fæstum tilfellum sambærilegt.

Við afhendingu Svansvottunarinnar kom fram í máli Gunnars Einarssonar bæjarstjóra að Garðabær hafi stutt byggingu smáíbúðahússins með ráðum og dáð frá fyrsta degi. Sveitarfélagið réðst í nauðsynlegar breytingar á skipulagsskilmálum til að heimilt yrði að byggja jafn litlar íbúðir og hér um ræðir. Hvergi var þó slakað á kröfum byggingareglugerðar t.d. varðandi salerni og eldunaraðstöðu. Gunnar sagði að bærinn liti til þess að áherslur í umhverfis- og skipulagsmálum gætu orðið fordæmi fyrir komandi verkefni í Garðabæ.

Gunnar bætti því við að mikill metnaður hafi verið lagður í bygginguna og í raun allt Urriðaholtshverfið með tilliti til umhverfisgæða. Hann sagði að það kæmi vel til greina að setja skilyrði í nýjum hverfum í Garðabæ að skipulag og byggingar væru vottuð. Gunnar sagði einnig að Urriðaholt ehf og IKEA hafi í gegnum tíðina sýnt mikla samfélagslega ábyrgð með margvíslegum stuðningi við samfélagið Garðabæ. ,,Í því samhengi er vert að nefna að IKEA greiddi laun kennsluráðgjafa í hönnun í nokkur ár og að vel er tekið í að aðstoða við móttöku flóttamanna bæði hvað varðar húsnæði og vinnu,” sagði Gunnar við afhendingu Svansvottunarinnar.

Tengt efni