6.05.2019

Forkynning á deiliskipulagstillögu fyrir austurhluta 2 og viðskiptastræti

Forkynning á deiliskipulagstillögu fyrir austurhluta 2 og viðskiptastræti í Urriðaholti stendur til 31. maí 2019. Tillöguna og fylgigögn hennar er að finna hér að neðan. Þeir sem telja sig hafa hagsmuna að gæta er gefinn kostur á því að koma með ábendingar sem verða teknar til umfjöllunar við endanlega mótun tillögunnar. Skal þeim skilað í þjónustuver Garðabæjar eða senda með tölvupósti á skipulag@gardabaer.is fyrir 31. maí 2019.

Almennur kynningarfundur

Almennur kynningarfundur um tillöguna var haldinn þriðjudaginn 7. maí í Urriðaholtsskóla. Auk kynningarinnar á deiliskipulagstillögunni var almenn kynning á áherslum hverfisins.

Um 35 manns voru á fundinum, en af þeim voru um 25 gestir úr hverfinu, hitt voru starfsmenn Urriðaholts/Garðabæjar.

Eftir kynningu á nýja deiliskipulaginu fyrir Urriðaholtsstræti voru tvær almennar kynningar fyrir hverfið, annars vegar um gæði umhverfis og skjólveggi, og hins vegar um græn svæði og leiksvæði í hverfinu. Því miður eru dæmi um það í hverfinu að skjólveggir hafi verið reistir í hverfinu sem hafa ekki verið hannaðir í samræmi við húsin, eru of háir og í ósamræmi við deiliskipulagsskilmála. Fundargestir tóku undir áhyggjur skipulagshönnuða vegna þessa og beindu því til Garðabæjar að setja sig í samband við þá sem ekki eru að fara eftir þeim reglum sem gilda. Slæmar útfærslur hafa neikvæð áhrif á gæði umhverfisins fyrir alla.

Þráinn Hauksson hélt erindi um grænu svæðin í hverfinu og hvernig uppbyggingu þeirra verður háttað. Góðir göngustígar munu liggja um allt hverfið og umhverfis það og tengja það stígum milli fjalls og fjöru. Stutt er í Heiðmörkina og að gönguleið um Urriðavatn, en þar er nýkomin trébrú yfir blautt svæði sem áður var ófært. Verið er að hanna leiksvæði við Lynggötu og styttist í framkvæmdir.

Erindi tóku um 30 mínútur og eftir það gafst góður tími til fyrirspurna í 30 mínútur. Á fundinum voru góðar umræður. Íbúar lýstu yfir ánægju sinni með að búa í hverfinu og komu með margar gagnlegar ábendingar um þætti sem betur mega fara. Dæmi: Umferð er of hröð, vantar leiðbeiningar til íbúa um hverfið, óskað eftir gámum fyrir lífrænan úrgang, óskað eftir strætó í hverfið og ábendingar komu um staðbundnar útfærslur á stígum og nýjum tengingum svo eitthvað sé nefnt.

Gunnar Einarsson lokaði fundinum og óskaði íbúum til hamingju með gott hverfi þar sem vandað hefði verið til verka. Um leið þakkaði hann þeim fyrir þolinmæðina því óhjákvæmilega verða íbúar fyrir ónæði á meðan hverfið er í uppbyggingu. Fundurinn var sendur út á facebook síðu Garðabæjar.

Rívíddarmynd austurhluti 2
Teikning í þrívídd af skipulagstillögunni.

Tengt efni