17.07.2015

Costco í Urriðaholt á næsta ári

Samningar voru undirritaðir í morgun um kaup verslunarkeðjunnar Costco á 14 þúsund fermetra verslunarhúsnæði að Kauptúni 3 í Urriðaholti. Verslun Costco mun taka til starfa á næsta ári. Verslunin bætist þar við flóru annarra fyrirtækja í Kauptúni, þar á meðal IKEA, Toyota, Bónus og Huyndai. Rúmfatalagerinn og ILVA hafa einnig keypt húsnæði í Urriðaholti, í Kauptúni 1.

Í frétt Morgunblaðsins um komu Costco í Urriðaholt kemur fram að Costco verði í sama húsi og Bónus og vörulager IKEA. Auk verslunarinnar áformar Costco að vera með sjálfsagreiðslustöð fyrir bifreiðaeldsneyti. Í Morgunblaðinu kemur fram að Costco sé ein stærsta smásölukeðja heims, með 670 verslanir, flestar í Bandaríkjunum. Í Costco er m.a. seld matvara, fatnaður og raftæki og áhersla lögð á að selja vörur í stórum magnpakkningum.

Urridaholt og hus Costco minni mynd
Fremst er Kauptún 3, þar sem Costco verður til húsa. Í baksýn sést íbúðahverfið í Urriðaholti, en mikil uppbygging á sér þar stað um þessar mundir. Ljósm: Ragnar Th. Sigurðsson.