14.06.2010

Borað fyrir jarðskautum fyrir 5-víra rafkerfið

Borun er lokið fyrir sjö jarðskautum í Urriðaholti til að tryggja sem bestar jarðtengingar fyrir 5-víra dreifikerfi rafmagns í hverfinu. Borað hefur verið niður á allt að 80 metra dýpi til að ná sem bestum árangri.

Brynjólfur Snorrason hjá Orkulausnum hefur umsjón með verkefninu í samstarfi við Hitaveitu Suðurnesja. Brynjólfur hefur í gegnum tíðina verið mikill baráttumaður fyrir því að draga úr svokallaðri rafmengun, sem skapast oftast vegna lélegra jarðtenginga og ónógrar spennujöfnunar.

Það er jarðborunarfyrirtæki Árna Kópssonar sem hefur séð um að bora fyrir jarðskautunum. Brynjólfur hefur verið viðstaddur allar boranir, til að mæla árangurinn og taka ákvarðanir um framvinduna.

„Ég mæli viðnámið í holunum á nokkurra metra bili. Eftir því sem viðnámið mælist lægra, þess betri verður jarðtengingin,” segir Brynjólfur.

„Jarðlögin hafa mikil áhrif á það hversu djúpt þarf að bora til að fá bestu jarðtengingu. Í mýrlendum jarðvegi þarf ekki að fara djúpt, en hér í Urriðaholtinu er það yfirleitt ekki fyrr en á 80 metra dýpi sem viðnámið er nógu lágt til að gefa bestu mögulegu jarðtengingu.”

Að borun lokinni er jarðskautavír settur niður í borholuna og tengdur við nálægan tengiskáp Hitaveitu Suðurnesja. Jarðtengingin fer um sérstakan vír - fimmta vírinn - inn í hvert einasta hús í Urriðaholtinu.

Hefðbundin rafdreifikerfi hafa fjóra leiðara (eða víra) en í 5-víra rafdreifikerfi hefur fimmti vírinn bæst við og gegnir eingöngu hlutverki jarðtengingar.

“Markmiðið með 5-víra rafdreifikerfinu er að stuðla að spennujöfnun og bæta jarðbindingu. Þannig er dregið úr líkum á ójöfnu flæði rafmagns og svokallaðri yfirtíðnibjögun. Þetta er í einu orði kallað rafmengun, sem getur orsakað ójafnvægi í umhverfinu og haft neikvæð áhrif á heilsufar manna og dýra,” segir Brynjólfur.

„Þegar hús eru illa spennujöfnuð og illa jarðtengd, þá hreinlega líður fólki ekki nógu vel,” segir hann. „Stundum finnst þessi vanlíðan á ákveðnum stöðum innanhúss, þar sem spennujöfnun er áfátt eða yfirtíðnibjögun vegna skorts á jarðtengingum. Þetta sést til dæmis á því að ló og ryk safnast fyrir á ákveðnum stöðum, sprungur myndast í veggjum, móða á milli glerja, málning flagnar eða að tæki bila óeðlilega mikið. Fólk getur fundið fyrir þreytu og sleni eða hreinlega orðið veikt við slíkar aðstæður og dýr eru mjög næm fyrir þeim.”

Borad fyrir jardskautum i Urridaholti april 2010 049
Borað fyrir jarðskautum í Urriðholtinu. Eins og sjá má er heilmikið umstang í kringum boranirnar, enda er farið niður á 80 metra dýpi.
Borad fyrir jardskautum i Urridaholti april 2010 020
Bragðið segir til um leiðnina: Brynjólfur smakkar endrum og sinnum á jarðveginum sem kemur upp úr borholunni. Hann segir að bragðið af jarðveginum komi heim og saman við leiðnina sem er í honum - en tekur fram að þetta sé óvísindaleg aðferð og endanlega ni
Borad fyrir jardskautum i Urridaholti april 2010 012
Á nokkurra metra bili mælir Brynjólfur árangurinn af boruninni. Markmiðið er að finna jarðlög með sem lægstu viðnámi, til að tryggja sem bestu jarðtengingu.