27.08.2018

Allt að gerast í Urriðaholti

Hin árlega loftmyndataka af uppbyggingu Urriðaholts fór fram fyrir skömmu. Framkvæmdir eiga sér stað víða í hverfinu eins og sjá má af myndunum og jarðvegsframkvæmdir eru hafnar við næsta áfanga í uppbyggingu sem er austan við Urriðaholtsskóla. Tillaga að deiliskipulagi austurhluta var auglýst fyrr á þessu ári og má sjá hana undir „Ítarefni“ hér á síðunni.

Fyrstu grunnskólabörnin byrjuð í Urriðaholtsskóla

Svo sannarlega má segja að mörg fyrstu skref séu stigin í Urriðaholti þessa dagana. Fyrsta skólasetning grunnskólabarna var í Urriðaholtsskóla 22. ágúst. Veðrið lék við börn og foreldra þegar þau mættu í skólann. Það er ekki á hverjum degi að nýr grunnskóli tekur til starfa og á heimasíðu hans segir að spennan hafi verið mikil, bæði hjá nemendur og starfsfólki. Á heimasíðu Urriðaholtsskóla kemur einnig fram að vel hafi gengið að manna allar stöður.

Þorgerður Anna Arnardóttir skólastjóri upplýsir að í vetur er grunnskólastarf fyrir börn í 1.-4. bekk og er 21 grunnskólabarn innritað. Samkennsla er á milli árganga. Fyrsti og annar bekkur vinna saman og 3.og 4. bekkur. Mikil teymisvinna er á milli starfsmanna og í upphafi skólaárs er farið yfir stöðu hvers og eins og í framhaldi fá allir markmið til að vinna eftir inn í veturinn.

Allir dagar grunnskólabarna hefjast á hreystikennslu og í framhaldi tekur við íslenskukennsla. Þorgerður Anna segir að hópurinn aðlagist vel nýjum aðstæðum. Þá er vert að geta þess að yfir 70 leikskólabörn eru komin í leikskólann. Aðlögun yngstu barna er í fullum gangi og þegar líður á veturinn mun fjölga í þeim hópi. Hópastarf leikskólabarna er að falla í fastar skorður, jógakennsla er fyrir öll yngstu börnin og njóta þau hennar til hins ítrasta. Þá eru allir virkir í að nota útisvæðið við leik og störf.

Uppbyggingin í Urriðaholti skoðuð úr lofti í ágúst 2018
Loftmyndir Urriðaholtsskóli 2018 0010
Fyrsti áfangi Urriðaholtsskóla er kominn í gagnið með leikskóladeild og grunnskóla 1.-4. bekkja.
Urriðaholtsskóli 2018 1813
Málin rædd í rólegheitum fyrsta skóladaginn.
Urriðaholtsskóli 2018 1868
Hvað annað er hægt en vera léttur í byrjun skólaársins.
Urriðaholtsskóli 2018 1842
Kennarar og aðrir starfsmenn Urriðaholtsskóla fara yfir málin með nemendum.